Lífland leggur mikla áherslu á gæðamál í öllum deildum fyrirtækisins. Það er stefna Líflands að tryggja viðskiptavinum sínum að vörur og þjónusta fyrirtækisins uppfylli væntingar og þarfir þeirra hvað varðar gæði, öryggi, afgreiðslu og samkeppnishæft verð.
Fyrirtækið uppfyllir allar opinberar kröfur sem gilda um reksturinn hverju sinni og veitir starfsfólki þá þjálfun sem nauðsynleg er.
Gæðakerfið í hveitimyllu Líflands byggir á HACCP eftirlitskerfinu (Hazard analysis and critical control points). Í því kerfi eru skilgreindir þeir staðir sem mestu máli skipta varðandi framleiðsluna auk réttra viðbragða við frávikum. Innra eftirliti með HACCP er ætlað að draga úr eða koma í veg fyrir hættur sem geta skapast við framleiðslu og dreifingu á mjöli og stuðla þannig að öryggi vörunnar. Hjá Líflandi er starfandi HACCP hópur eða gæðaráð undir stjórn gæðastjóra sem sér um innra eftirlit fyrirtækisins.
Öflugt meindýraeftirlit er í verksmiðjunni og viðunandi ráðstafanir fyrir hendi með tilliti til þess. Öllu sorpi sem fellur til við framleiðsluna er fargað af viðurkenndum aðilum.
Lífland verslar aðeins við viðurkennda birgja og gerir miklar kröfur til þeirra, bæði hvað varðar gæði hráefnis og öryggi við flutning.
Allt hráefni sem notað er í hveitimyllunni er óerfðabreytt og fellur því ekki undir reglugerð 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs.
Rannsóknarstofa Kornax
Korn er lifandi afurð sem háð er breytingum á tíðarfari, ræktunarstað og meðferð en í hveitimyllu Líflands er mikil áhersla lögð á stöðugleika vörunnar. Þessum stöðugleika er náð með virkri framleiðslustjórnun og reglubundnum mælingum á þeim þáttum sem stýra gæðamati hverrar afurðar fyrir sig. Í verksmiðjunni er staðsett rannsóknarstofa þar sem framkvæmdar eru eftirfarandi mælingar:
Prótein, raki og harka
Próteininnihald, raki og harka mjölsins eru mæld með "innrauðri mælingu" (near infrared spectroscopy (NIR)).
Glúten
Prótein í hveiti er að mestu leyti á formi glútens. Glúten er það efni sem gefur kornmeti loftkennda áferð og þess vegna eru glútenfríar(-lausar) vörur þyngri í sér og oft frekar þurrar. Þegar brauðdeig er hnoðað myndast loftbólur sem verða til fyrir tilstuðlan gers. Utan um þessar loftbólur myndast nokkurs konar glútenhimnur sem stífna við baksturinn og brauðið bakast. Eyðileggist glútenið, lyftist brauðið lítið sem ekkert.
Glútenið er aðskilið í Glutomatic tæki og vigtað eftir þvott og síun. Þá er hægt að reikna magn glútens í hveitinu út frá sérstakri formúlu.
Vatnsbinding
Tilgangurinn með vatnsbindimælingu er að kanna styrk glúten-netsins, þ.e., hversu lengi það getur haldið vatni án þess að rofna. Vatnsbinding er mæld í Farinograph-tæki sem er sérstakt deigblöndunartæki. Flest fyrirtæki í hveitiiðnaðinum víðsvegar um heiminn nota samsvarandi tæki til að mæla gæði, styrk og stöðugleika hveitisins.
Falltala
Í hveitikorni eru fjölmörg virk ensím sem gegna ákveðnum hlutverkum. Sum þessara ensíma kallast amylasar og gegna því hlutverki að auka niðurbrot sterkjunnar í sykrur. Æskilegt er að hæfileg amylasavirkni sé til staðar í hveitinu til að auka gerjun deigsins. Of mikil amylasa-virkni í hveitinu getur hins vegar valdið ákveðnum vandamálum í bakstri.
Þegar hveiti er blandað saman við vatn og hitað, byrjar amylasinn strax að brjóta sterkjuna niður í sykrur. Með tímanum verður deigið vatnskenndara eftir því sem hærra hlutfalli sterkjunnar er breytt í sykur og sykurinn leysist upp. Í raun þá er falltalan mæling á því hversu langan tíma það tekur að breyta seigri sterkju og vatnsdeigi í fljótandi sykur og vatnslausn.
Flestir kornsérfræðingar eru á þeirri skoðun að falltala hærri en 400 gefi til kynna að engin amylasa virkni sé í mjölinu. Tiltölulega auðvelt er að aðlaga falltöluna niður á við, þ.e. amylasa virknin er aukin með því að bæta amylasa í mjölið. Hins vegar er næstum ómögulegt að hækka falltöluna, þ.e. að minnka amylasa virknina.
Ef ensímvirknin er of há (og þar með falltalan lág), fáum við klístraða og blauta skorpu með stórum holum í brauðinu og lítið rúmmál. Ef ensímvirknin er of lág (falltalan há) þá veldur það þurru brauði sem molnar auðveldlega og brauðhleifurinn verður mjög þéttur.
Sveppabakstur
Reglulega eru bakaðir sveppalaga brauðhleifar úr mjölinu. Þessir svokallaðir „sveppir“ eru staðlaðir og út frá þeim er hægt að segja til um rýmd brauðs, uppbyggingu kjarna, skorpu og lit brauðsins.