Úrslit: Smákökusamkeppni KORNAX árið 2016
Vinningshafarnir:
Kristín Arnórsdóttir, 1. sæti (til hægri), Eyrún Eva Haraldsdóttir, 2. sæti (fyrir miðju) og
Hugrún Britte Kjartansdóttir, 3. sæti (til vinstri).
Smákökusamkeppni KORNAX hefur verið haldin í aðdraganda jólanna síðastliðin ár. Þá keppa áhugabakarar um bestu jóla smákökuna sem inniheldur bæði KORNAX hveiti og vörur frá Nóa Síríusi og hljóta vinningshafarnir glæsileg verðlaun. Frábær þátttaka var í ár og bárust rúmlega 100 smákökuuppskriftir. Því var erfitt verkefni framundan hjá dómnefndinni en hana skipuðu Eva Laufey Kjaran matarbloggari og þáttastjórnandi, Axel Þorsteinsson konditor , Albert Eiríksson matarbloggari og ástríðukokkur og Silja Mist Sigurkarlsdóttir vörumerkjastjóri hjá Nóa Síríus.
Dómnefndin, Albert, Eva Laufey, Axel og Silja Mist
Dómarar höfðu úr vöndu að velja og höfðu orð á því að mikill metnaður væri lagður í allar kökurnar. Þær voru hver annarri fjölbreyttari og að lokum stóð Kristín Arnórsdóttir uppi sem sigurvegari með smákökur sem hún nefnir Pólyensíur.
Í 2. sæti var Eyrún Eva Haraldsdóttir með smákökurnar Snjódrífur með pistasíuhnetum og sjávarsalti, og í 3. sæti var Hugrún Britte Kjartansdóttir með súkkulaðihúðaðar jólasmákökur með ristuðum pekanhnetum.
Vegleg verðlaun voru veitt fyrir 1 - 3 sætið:
1. verðlaun eru KitchenAid hrærivél frá Einari Farestveit, út að borða að verðmæti 30.000 krónur hjá Argentínu steikhús, gisting í 2ja manna herbergi ásamt morgunverði á Hótel Selfossi, 40.000 króna inneign í Nettó, KORNAX hveiti í baksturinn og glæsileg gjafakarfa frá Nóa Síríus.
2. verðlaun eru jólahlaðborð fyrir tvo á Argentínu steikhús, 30.000 króna inneign í Nettó, KORNAX hveiti í baksturinn og glæsileg gjafakarfa frá Nóa Síríus.
3. verðlaun eru 20.000 króna inneign í Nettó, KORNAX hveiti í baksturinn og glæsileg gjafakarfa frá Nóa Síríus.
Þetta hafði dómnefnd að segja um kökurnar þeirra:
1. sæti
Flott og góð jólakaka sem bráðnar upp í mér
Stóð út úr.
Smekkleg og falleg
Góður ballans á milli hráefnanna.
Karamellan og kókosinn gera gæfumuninn.
2. sæti
Pistasíurnar gerðu mikið fyrir mig
Jólaleg og fallega skreytt
Einföld og góð
Vanillan og saltið harmónerar vel saman
3. sæti
Vildi góðan kaffisopa með smákökunni
Sparikaka og maður nýtur hvers bita fyrir sig
Jólaömmukaka með gamaldags ívafi
Notalegheit sem fylgir henni
Við óskum vinningshöfunum innilega til hamningju og þökkum öllum kærlega fyrir sem sendu inn smákökur í keppnina.
Hér fyrir neðan birtum við uppskriftir þeirra sem lentu í fyrstu þremur sætunum:
1. sæti - Pólynesíur
Kristín Arnórsdóttir
Uppskrift smákökur:
225 gr ósaltað smjör
100 gr sykur
250 gr KORNAX hveiti
¼ tsk lyftiduft
½ tsk salt
1 tsk vanilludropar
2 msk mjólk
Uppskrift kókostoppur:
400 gr ljósar karamellur
250 gr kókosmjöl
3 msk rjómi
½ tsk salt
100 gr Nóa Síríus suðusúkkulaði
Aðferð smákökur:
Hrærið smjör og sykur saman í hrærivél eða með handþeytara.
Sigtið saman öll þurrefnin og hrærið þeim vel saman við sykurinn og smjörið í þremur áföngum.
Bætið mjólkinni og vanilludropunum saman við með höndum þar til deigið helst vel saman.
Skiptið deiginu í tvær kúlur og vefjið inn í plastfilmu.
Setjið deigið inn í ísskáp í eina klst.
Takið deigið út og rúllið þar til það verður minna en ½ cm að þykkt.
Skerið út smákökur með litlu glasi eða smákökuhring (um 5 cm í þvermál).
Skerið svo minni hring út í hverri köku með t.d. flöskutappa eða rjómasprautustút.
Bakið í miðjum ofni við 175°C í 10-12 mínútur eða þar til að kökurnar verða ljósgylltar.
Kókostoppur aðferð:
Ristið kókosmjölið í ofni í 10 mínútur við 175°C þangað til það verður gyllt.
Gætið þess að velta því af og til svo það bakist jafnt.
Bræðið karamellurnar yfir vatnsbaði og bætið rjómanum og saltinu út í þegar þær hafa bráðnað alveg. Takið frá ¼ af karamellubráðinni. Blandið kókosmjölinu við ¾ af karamellubráðinni.
Þegar smákökurnar hafa kólnað er ¼ af karamellubráðinni smurt yfir smákökurnar. Því næst er kókostoppurinn mótaður í höndunum fyrir hverja köku og settur í hring ofan á karamellubráðina, kælið.
Að lokum er suðusúkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og botninn á smákökunum dýft varlega ofan í þar til súkkulaðið þekur botninn. Restin af súkkulaðinu er svo notað til að skreyta kökurnar að ofan.
2. sæti - Snjódrífur með pistasíuhnetum og sjávarsalti
Eyrún Eva Haraldsdóttir
Uppskrift smákökur:
2 bollar KORNAX hveiti
½ bolli púðursykur
¼ bolli sykur
¾ bolli mjúkt smjör
2 egg
1 tsk matarsódi
1 tsk vanilludropar
¼ bolli ab mjólk
½ bolli pistasíuhnetur (kjarnar)
½ bolli hvítir súkkulaðidropar frá Nóa Síríus
½ tsk salt
Uppskrift hjúpur:
300 gr hvítir súkkulaðidropar frá Nóa Síríus
½ bolli pistasíhnetur (kjarnar)
¼ tsk sjávarsalt
Aðferð smákökur:
Þeytið sykur, púðursykur og smjör saman. Bætið við eggjum, einu í einu og loks vanilludropum.
Hrærið restinni af þurrefnum saman við og blandið síðan ab mjólkina, pistasíuhneturnar og súkkulaðið út í.
Bakið við 175°C í 10-15 mínútur.
Aðferð hjúpur:
Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði, dýfið kökunum í brætt súkkulaðið.
Skreytið með söxuðum hnetum og sjávarsalti.