Vinningsuppskriftir 2018

 

Úrslit Smákökusamkeppni Kornax 2018

 

Smákökusamkeppni KORNAX hefur verið fastur liður í aðdraganda jólanna hjá Líflandi síðastliðin ár. Frábær þátttaka var í ár og bárust hátt í 200 smákökur frá áhugabökurum sem kepptust um bestu jóla smákökuna sem inniheldur bæði KORNAX hveiti og vörur frá NÓA SÍRÍUS. Dómarar í ár voru Albert Eiríksson, Auðjón Guðmundsson, Sylvía Haukdal og Ásta Björk Styrmisdóttir.   Vinningshafarnir hlutu glæsileg verðlaun og viljum við óska þeim innilega til hamingju með sigurinn og þökkum öllum sem tóku þátt kærlega fyrir þátttökuna!

Dómnefndin: Sylvía Haukdal, Ásta Björk Styrmisdóttir, Albert Eiríksson og Auðjón Guðmundsson

Vinningshafi að þessu sinni var Carola Ida Köhler með smákökur sem hún kallaði Hvít jól.

Hvít jól eru afar jólalegar kökur með fallegum gylltum snjóflögum.

Í kökunum er meðal annars sítrónubörkur, sem gefur þeim ferskt sítrónubragð. Það ásamt kreminu og gyllingunni er hin fullkomna blanda að mati dómnefndar.

 

Í verðlaun fyrir fyrsta sætið var:

KitchenAid hrærivél frá Raflandi, Smellur frá Hótel Selfossi, sem inniheldur gistingu í 2ja manna herbergi ásamt morgunverði auk þriggja rétta kvöldverðar að hætti hússins, gjafabréf að upphæð kr. 40.000 frá Nettó, KORNAX hveiti í baksturinn, lífræn egg frá Nesbú-eggjum og glæsilegur gjafapoki frá Nóa Síríusi.

 

Í öðru sæti var Ásdís Hjálmtýsdóttir með Appelsínueftirlæti. Appelsínueftirlæti eru stökkar smjörkökur sem að minna okkur á Bessastaðakökur. Möndlur + appelsínubörkur = jólin.

 

Í verðlaun fyrir annað sætið var:

Matur fyrir tvo á veitingastaðnum KOL við Skólavörðustíg, gjafabréf að upphæð kr. 30.000 frá Nettó, glæsilegt og vandað fimm stykkja KitchenAid bökunarsett frá Raflandi, KORNAX hveiti í baksturinn, lífræn egg frá Nesbú-eggjum og glæsilegur gjafapoki frá Nóa Síríusi.

 Í þriðja sæti var Elenóra Rós með kökur sem heita Stúfur bakari.

 Í verðlaun fyrir þriðja sætið var:

Gjafabréf að upphæð kr. 20.000 frá Nettó, KORNAX hveiti í baksturinn, lífræn egg frá Nesbú-eggjum og glæsilegur gjafapoki frá NÓA SÍRÍUS.

Vinningshafar : Elenóra, Carola Ida og Ásdís

 Hér fyrir neðan má svo sjá uppskriftir þeirra sem lentu í fyrstu þremur sætunum:

 

1.sæti – Hvít jól

Uppskrift:

1 ¾ bolli KORNAX hveiti

½ tsk lyftiduft

¼  tsk salt

115 gr smjör (mjúkt)

½ bolli púðursykur

½ bolli sykur

1 egg

1 tsk vanilludropar

Rifið hýði af einni sítrónu

2 msk sítrónusafi

1 ½ bolli kókosflögur sætar (muldar gróft)

100 gr hvítir súkkulaðidropar frá NÓA SIRÍUS

 

Fylling:

2 dl lemon curd

3 dl kókosflögur (muldar gróft)

 

Súkkulaðihjúpur:

200 gr hvítir súkkulaðidropar frá NÓA SIRIUS

 

Aðferð:

Hitið ofninn í 180 °C, setjið kókosflögur á bökunarpappír í ofnskúffu og ristið í ofni í um.þ.b.. 5 mín.

(Passið að brenna ekki, á að vera gullið á lit).

Hrærið mjúku smjöri og sykri saman, bætið við eggi, vanilludropum, rifnum sítrónuberki og sítrónusafa við deigið, hrærið þar til það hefur blandast vel saman. Þá er hveiti, lyftidufti og salti bætt við. Blandið að lokum kókosflögum og hvítu súkkulaði saman við.

Setjið inn í ísskáp í um.þ.b. 30 mín, búið til kúlur og setjið á bökunarpappír.

Þrýstið þumli í miðja kökuna til að búa til góða holu.

Hrærið saman lemon curd og kókosflögum í skál. Setjið þá góða teskeið af fyllingu í hverja köku og bakið í um.þ.b. 12 mín við 180°C. Kælið kökurnar.

Bræðið 200 gr af hvítum súkkulaðidropum frá NÓA SIRÍUS yfir vatnsbaði og setjið yfir hverja köku með teskeið. Skreytið að vild.

 

2. sæti – Appelsínu eftirlæti

Uppskrift:

250 gr smjör við stofuhita

250 gr sykur

350 gr KORNAX hveiti

1 egg

Rifinn appelsínubörkur af tveimur appelsínum

Safi úr einni appelsínu

 

Ofan á kökurnar:

150 gr Konsum Orange frá NÓA SIRÍUS.

Rifinn appelsínubörkur af þremur appelsínum og möndluflögur.

 

Aðferð:

Hrærið smjör og sykur vel saman og bætið appelsínusafanum við, hveiti er þá bætt út í í smá skömmtum ásamt rifna berkinum.

Hnoðið vel saman. Rúllið í lengjur og kælið í um.þ.b. 2 klst.

Skerið í 1 cm þykkar sneiðar, bakið við 190°C í ca. 15 mínútur.

Kælið kökurnar.

 

Ofan á kökur:

Bræðið súkkulaði í örbylgjuofni í um.þ.b. eina mínútu.

Hitið ½ dl af vatni og 4 msk af sykri þar til það fer að þykkna.

Bætið þá rifna appelsínuberkinum saman við sykurblönduna og látið bíða um stund.

 

Samsetning:

Súkkulaði er sett á kökuna með teskeið, möndluflögum stráð yfir og örlítið af berkinum.

Kælið og njótið.

 

3.sæti – Stúfur bakari

Vinningshafi: Elenora Rós

Uppskrift:

300 gr KORNAX hveiti

150 gr smjör

100 gr flórsykur

1 egg

Súkkulaði yfir köku:

100 gr Pralin frá NÓA SIRÍUS

Aðferð:

Setjið öll hráefnin saman í hrærivélaskál og hrærið þar til að deigið er næstum alveg hrært saman. Hellið því á borðið og klárið að hnoða það saman með höndum. Kælið í 30 mín. Takið það úr kæli og fletjið út og skerið eins og þið vilji hafa það. Setjið kökurnar á pappírsklædda ofnskúffu og bakið við 200°C í  6-8 mínútur.

Krem uppskrift:

250 gr flórsykur

250 gr smjör

100 gr Konsum Orange  frá Nóa Siríus

Safi úr einni appelsínu

 

Aðferð:

Þeytið smjör þar til létt og ljóst.

Bætið flórsykri við og þeytið aðeins lengur.

Á meðan smjörkremið þeytist þá er gott að bræða súkkulaðið.

Þegar kremið og súkkulaðið er tilbúið kælið þá hvort tveggja í um.þ.b. 15 mínútur.

Hellið þá kældu súkkulaði út í kremið og hrærið, bætið þá safanum út í og hrærið örlítið lengur.

Sprautið kreminu á smákökuna og setjið inn í ísskáp.

 

Súkkulaði yfir köku:

Bræðið Pralin súkkulaði frá NÓA SIRÍUS yfir vatnsbaði og setjið yfir kökurnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Karfa

Skoða körfu Karfan er tóm

Lífland ehf.

Verslun Reykjavík  |  Lyngháls 3  |  110 Reykjavík  |  Sími: 540 1125
Verslun Akureyri  |  Grímseyjargata 2  |  600 Akureyri  |  Sími: 540 1150
Verslun Borgarnesi | Digranesgata 6 | 310 Borgarnesi | Sími: 540-1154
Verslun Blönduósi |  Efstubraut 1  |  540 Blönduósi  |  Sími: 540 1155
Verslun Hvolsvelli | Ormsvöllur 5| 860 Hvolsvelli | Sími: 487 8888
Verslun Selfossi | Austurvegur 69 | 800 Selfoss | Sími: 540 1165
Skrifstofa  |  Brúarvogi 1-3  |  104 Reykjavík  |  Sími: 540 1100
lifland@lifland.is

Opnunartímar verslana