Lífland hefur um langt árabil verið í fararbroddi þegar kemur að úrvali sáðvöru sem gefið hefur góða raun við íslenskar aðstæður. Við bjóðum upp á gæðavöru, m.a. frá SW Seed í Svíþjóð (áður Svalöf) og Boreal í Finnlandi en þessi fyrirtæki eru leiðandi á sínum sviðum og hafa unnið mikið að kynbótum á nytjaplöntum fyrir norðlægar aðstæður. Lífland býður einnig upp á grasfræ og grasfræblöndur sem henta í grasflatir og til uppgræðslu á röskuðum svæðum og bjóðum við upp á túnvingul, sauðvingul, vallarveifgras, vallarrýgresi og fleiri valkosti í slíkt.
Framboð Líflands af sáðvöru tekur að stóru leyti mið af þeim yrkjum sem gefið hafa besta raun í yrkjatilraunum Landbúnaðarháskóla Íslands og hefur Lífland átt gott samstarf við íslenska jarðræktarsérfræðinga um yrkjaval. Jafnframt hefur verið leitast eftir því að eiga gott samstarf við bændur sem hafa hug á því að reyna ræktun nýrra tegunda og yrkja. Jóhannes Baldvin Jónsson landnýtingarfræðingur er vörustjóri sáðvöru og hefur um árabil leitt vöruþróun og vöruval Líflands á þessu sviði.
Starfsfólk Líflands er boðið og búið að veita þér faglega ráðgjöf um val á réttu sáðvörunni. Lífland býður gæðavöru á góðu verði og leitast við að tryggja skjóta og skilvirka þjónustu þegar sáðvélarnar þurfa að komast hratt yfir.
>> SÁÐVÖRUVERÐSKRÁ 2022 <<
Nýjungar í sáðvöruúrvali Líflands 2022
Sáðvörulisti Líflands er í stöðugri endurskoðun og á undanförnum árum hefur verið skýr áhugaaukning á hverskyns niturbindandi belgjurtum. Lífland hefur lagt upp með að fylgja þessari þróun grannt eftir og býður nú talsvert breiðara úrval belgjurta auk þess sem ýmislegt fleira hefur skilað sér inn á listann. Notkun belgjurta er ekki bara áhugaverð sakir fjölbreytni og fóðrunarvirðis margra tegunda af þessari ætt plantna. Belgjurtir binda verðmætt köfnunarefni úr andrúmsloftinu og miðla til svarðarnauta, þær mynda próteinfóður með háan meltanleika og eru duglegar að taka upp lífsnauðsynleg steinefni sem skila sér til búfjár. Notkun belgjurta er að endingu hreinræktað umhverfismál þar sem þær draga úr þörfinni á dýrum, langt að komnum aðföngum og auka sjálfbærni.
Ekki er loku fyrir það skotið að fleira forvitnilegt eigi eftir að komast á listann í aðdraganda vorsins og verður sáðvörulistinn uppfærður jöfnum höndum.
Rauðsmári PEGGY (4n)
Ferlitna yrki (4n), uppskerumikið. Hefur komið vel út í tilraunum hérlendis. Rauðsmári er uppskerumikill og gefur af sér lystugt fóður og almennt góðan endurvöxt. Rauðsmári hefur ekki jarðrenglur heldur stólparót og hefur því ekki sömu möguleika á að breiða úr sér og hvítsmárinn. Hann þolir þurrk en er ekki jafn vetrar- og beitarþolinn og hvítsmári. Allt smárafræ fæst nú forsmitað hjá Líflandi.
Hestabaunir SAMPO
Hestabaunir eru niturbindandi belgjurtir sem erlendis eru bæði nýttar fyrir próteinríkar baunirnar en einnig í heilsæðisræktun. Sampo er mjög snemmþroska hestabaunayrki (Vicia faba) á finnskan mælikvarða. Sampo hestabaunir eru smáar og henta því vel til þreskingar og þurrkunar. Baunirnar þola jafnframt nokkuð hnjask og klofna því síður við meðhöndlun. Próteinmagn í baununum er um 33% á þurrefnisgrunni. Í Finnlandi er meðaluppskera þurrefnis um 2.800 kg/ha, og er þá átt við baunauppskeru.
Fóðurlúpína PRIMADONNA
Einærar fóðurlúpínur (L. angustifolius) eru ræktaðar vegna próteinríks fræs en hugsanlega má einnig nýta þær sem grænfóður. Eins og aðrar lúpínur eru fóðurlúpínur niturbindandi ef bakteríusmit er tryggt. Yrkið Primadonna er einsleitt yrki sem myndar greinóttan og lágvaxinn stöngul (40-50 cm). Yrkið er snemmþroska við danskar aðstæður og hefur gefið af sér allt að 2-2,7 tonn fræuppskeru/ha í yrkjatilraunum. Próteininnihald hefur verið um 30% á þurrefnisgrunni. Þúsundkornaþungi er allajafna um 150-200g. Primadonna telst vera s.k. sæt lúpína með lítið innihald beiskjuefna sem gefur fyrirheit um nýtingu til beitar og fóðurs.
Ertur MATILDA
Nýlegt finnskt ertuyrki. Hentar vel til fóðurs og manneldis. Uppskerumikið. Ertur er einærar og hentugar sem grænfóður, einkum í heilsæðisræktun með höfrum, byggi eða hveiti. Ertur eru góðar fóðurjurtir, prótein- og steinefnaríkar. Ertur, líkt og smárar, binda nitur/köfnunarefni úr andrúmslofti. Smita þarf fræið með þar til gerðu bakteríusmiti til að tryggja að plönturnar nái í niturbindandi Rhizobium bakteríur.
Sexraða bygg BRAGE
Fljótþroska, uppskerumikið norskt yrki. Nokkuð hátt undir axið en strásterkt. Hefur reynst vel sunnanlands í samanburði við mörg sex raða yrki. Hefur ágætt þol fyrir sveppasjúkdómum.
Tvíraða bygg ARILD
Nýlegt norskt yrki sem hefur staðið sig vel í innlendum tilraunum og verið fyrst til þroska af erlendum tvíraða yrkjum en seinna en Kría. Með háan þúsundkornaþunga, hávaxið og uppskerumikið. Erlendis er þolið gott fyrir helstu sveppasjúkdómum.
Sumarhafrar TAIKA
Hafrayrkið TAIKA hefur gefið áhugaverðar niðurstöður í tilraunum LBHÍ og margt bendir til þess að hér sé góður valkostur fyrir þá sem vilja rækta hafra til sláttar. TAIKA skríður seint og er bæði hávaxin og blaðrík.
Vallarfoxblanda LÍF
Fjölstofna vallarfoxgrasblanda fyrir þá sem kjósa vallarfoxgras í hreinrækt. Samanstendur bæði af vetrarþolnari yrkjum sem skila minni endurvexti og öðrum sem skila meiri uppskeru í seinni slætti en geta enst skemur. Allir stofnar í blöndunni eru þrautreyndir og vel þekktir við íslenskar aðstæður.
Ísáningarblanda LÍF
Blanda með uppskerumiklum stofnum vallarfoxgrass í blöndu við vallarrýgresi ætluð til ísáningar í tún. Byggir á hugmyndafræði um að auka hlutdeild hagstæðra fóðurgrasa með reglubundinni ísáningu í túnsvörðinn.
Vallarrýgresi RIIKKA
Vetrarþolið finnskt yrki. Hentar vel í hreinrækt. Tvílitna yrki (2n). Álitlegt yrki fyrir íslenskar aðstæður.
Selgresi TUATARA
Snemmsprottin, steinefnarík beitarjurt sem hentar vel í vorbeitarstykki. Skilar góðum endurvexti og er með djúpsækna rót og þurrkþolið. Tilvalið að sá í blöndu með grastegundum, rauðsmára og hvítsmára. Selgresi vex villt á Íslandi.
Kynntu þér landsins mesta úrval af sáðvöru í nýjum og efnismiklum sáðvörulista Líflands fyrir árið 2022 og í vefverslun okkar.
Sölumenn okkar gera þér tilboð og ráðleggja þér með val á réttu sáðvörunni í s. 540-1100 eða í sala@lifland.is