Lífland hefur um langt árabil verið í fararbroddi þegar kemur að úrvali sáðvöru sem gefið hefur góða raun við íslenskar aðstæður. Við bjóðum upp á gæðavöru, m.a. frá SW Seed í Svíþjóð (áður Svalöf) og Boreal í Finnlandi en þessi fyrirtæki eru leiðandi á sínum sviðum og hafa unnið mikið að kynbótum á nytjaplöntum fyrir norðlægar aðstæður. Lífland býður einnig upp á grasfræ og grasfræblöndur sem henta í grasflatir og til uppgræðslu á röskuðum svæðum og bjóðum við upp á túnvingul, sauðvingul, vallarveifgras, vallarrýgresi og fleiri valkosti í slíkt.
Framboð Líflands af sáðvöru tekur að stóru leyti mið af þeim yrkjum sem gefið hafa besta raun í yrkjatilraunum Landbúnaðarháskóla Íslands og hefur Lífland átt gott samstarf við íslenska jarðræktarsérfræðinga um yrkjaval. Jafnframt hefur verið leitast eftir því að eiga gott samstarf við bændur sem hafa hug á því að reyna ræktun nýrra tegunda og yrkja. Jóhannes Baldvin Jónsson landnýtingarfræðingur er vörustjóri sáðvöru og hefur um árabil leitt vöruþróun og vöruval Líflands á þessu sviði.
Starfsfólk Líflands er boðið og búið að veita þér faglega ráðgjöf um val á réttu sáðvörunni. Lífland býður gæðavöru á góðu verði og leitast við að tryggja skjóta og skilvirka þjónustu þegar sáðvélarnar þurfa að komast hratt yfir.
>> SÁÐVÖRUVERÐSKRÁ 2023 <<
Nýjungar í sáðvöruúrvali Líflands 2023
Íslensk kornrækt hefur verið að sækja í sig veðrið á liðnum árum eftir nokkurn samdrátt. Yrkjaúrvalið tekur stöðugum framförum og kynbætur fyrir norðlægar aðstæður hafa skilað árangri fyrir íslenska ræktendur byggs, en einnig hefur áhugi bænda verið að aukast á höfrum og vart hefur orðið við áhugaaukningur á ræktun hveitis.
Ræktun sexraða byggs hefur breiðst nokkuð út á kostnað tvíraða byggs, enda er sexraða bygg almennt uppskerumeira. Tvíraða byggið heldur þó víða velli þar sem ræktað er nær sjó og það hefur einnig betra þol fyrir veðrum, t.d. þar sem hætt er við hviðum nærri fjöllum. Tvíraða Kría er t.d. það yrki sem fyrst er til þroska og býður upp á ágætis öryggi varðandi kornþroska.
Við leggjum áfram áherslu á aukningu úrvals í niturbindandi tegundum, en þar er helst að nefna aukið framboð af ertum sem hafa sótt í sig veðrið og má bæði nota í heilsæðisræktun og sem skjólsáningu með grösum. Af öðrum belgjurtum má einnig nefna forsmitað smárafræ sem átt hefur miklum vinsældum að fagna en býður einnig upp á að bæta smára í grasfræblöndur og sparar bændum vinnu og umstang.
Belgjurtir binda verðmætt köfnunarefni úr andrúmsloftinu og miðla til svarðarnauta, þær mynda próteinfóður með háan meltanleika og eru duglegar að taka upp lífsnauðsynleg steinefni sem skila sér til búfjár. Notkun belgjurta er að endingu hreinræktað umhverfismál þar sem þær draga úr þörfinni á dýrum, langt að komnum aðföngum og auka sjálfbærni.
Bygg
Af nýjungum í byggúrvalinu má helst nefna að finnska sexraða byggið Hermanni er loks fáanlegt í góðu upplagi. Hermanni er yrki sem komið hefur mjög vel út við íslenskar aðstæður, bæði í tilraunum og hjá bændum sem prófað hafa. Það er í hópi þeirra yrkja sem fyrr eru til þroska og skilar korni með hærra þurrefnisinnihaldi en mörg önnur. Einnig má nefna stóraukið framboð hins íslenska sexraða Smyrils, yrkis sem er kynbætt fyrir íslenskar aðstæður og hefur fram að færa snemmþroska og góða uppskeru og ætti að vera staðalyrki sem víðast.
Rauðsmári SAIJA (2n)
Saija er finnskt, tvílitna rauðsmárayrki sem hefur gefið góða uppskeru og reynst hafa góða endingu í tilraunum LbhÍ. Rauðsmári er uppskerumikill og gefur af sér lystugt fóður og almennt góðan endurvöxt. Rauðsmári hefur ekki jarðrenglur heldur stólparót og hefur því ekki sömu möguleika á að breiða úr sér og hvítsmárinn. Hann þolir þurrk en er ekki jafn vetrar- og beitarþolinn og hvítsmári. Saija fæst ekki forsmituð, en bakteríusmit fæst hjá Líflandi.
Smáratún SPRETTA
Smáratúnsblandan Spretta er nýjasta viðbótin við hina vinsælu Smáratúns-vörulínu Líflands. Hún inniheldur 3 kröftuga stofna vallarfoxgrass; Switch, Rakel og Tryggve, allt vel reyndir og þekktir stofnar sem gefa góðan endurvöxt. Í blöndunni er 20% vallarrýgresi Birger, sem er trúlega sá vallarrýgresisstofn á markaði sem reynst hefur hvað best. Síðast en ekki síst inniheldur blandan forsmitað smáfræ í auknu 30% hlutfalli. Hvítsmárastofninn Undrom er vel þekktur hér og þrautreyndur en að auki eru í blöndunni ferlitna rauðsmárayrkið Peggy og tvílitna rauðsmárinn Yngve. Allt eru þetta stofnar sem ættu að skila kröftugri sprettu og gera bændum kleyft að afla meira fóðurs um leið og dregið er úr notkun á dýru köfnunarefni.
Vetrarrepja UNICORN
Unicorn er óreynt en áhugavert blendingsyrki vetrarrepju (repjukáls/fóðurkáls) sem hugsað er til beitar. Unicorn er úr smiðju Limagrain, kynbótafyrirtækis sem einnig á heiðurinn af hinu vinsæla Hobson yrki, sem flestir bændur þekkja auk Interval repjunnar sem hefur reynst mjög vel hérlendis. Unicorn hefur reynst snemmsprottið yrki sem hefur mikla vaxtargetu og getur jafnframt gefið af sér góðan endurvöxt með réttri nýtingu.
Kynntu þér landsins mesta úrval af sáðvöru í nýjum og efnismiklum sáðvörulista Líflands fyrir árið 2023 og í vefverslun okkar.
Sölumenn okkar gera þér tilboð og ráðleggja þér með val á réttu sáðvörunni í s. 540-1100 eða í sala@lifland.is