Vinningshafi keppninnar var Stella Sigurbjörg Björgvinsdóttir en alls bárust 55 uppskriftir og sýnishorn af smákökum til keppninnar. Önnur verðlaun hlaut Harpa María Örlygsdóttir og þriðju verðlaun hlaut Elín Rósa Bjarnadóttir. Hlutu vinningshafar glæsileg verðlaun frá Einari Farestveit & Co. , Nóa Siríusi og Nóatúni auk áskriftar að Gestgjafanum og hveiti frá Kornax.
Þema keppninnar í ár var súkkulaði og var dæmt eftir bragði, áferð, lögun og lit. Dómnefndina skipuðu þau Margrét D. Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir frétta- og dagskrárgerðarmaður, Sigríður Björk Bragadóttir blaðamaður á Gestgjafanum, Sigrún Guðjónsdóttir frá Kornaxi og Gissur Sigurðsson fréttamaður á Bylgjunni.
1. sæti Stella Sigurbjörg Björgvinsdóttir
Hafrakökur með rúsínum og súkkulaði:
300 g Kornax hveiti
375 g sykur
150 g haframjöl
1 tsk. matarsódi
240 g smjörlíki
2 dl rúsínur
125 g suðusúkkulaði frá Nóa Siríus, saxað
2 egg
100 g brætt suðusúkkulaði, til skrauts
Hitið ofninn í 200° C. Blandið öllum þurrefnum saman og myljið smjörlíki út í. Hnoðið vel saman. Bætið því næst rúsínum, súkkulaði og eggjum út í og blandið vel saman. Búið til litlar kúlur úr deiginu og þrýstið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Bakið kökurnar þar til þær eru orðnar ljósbrúnar á lit. Kælið kökurnar og skreytið síðan með bræddu súkkulaði.