Fara í efni

Hráefni Líflands

Samkvæmt reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og fóðurs ber fyrirtækjum að merkja matvæli og fóður sem:

  • Eru, samanstanda af eða innihalda erfðabreyttar lífverur.
  • Eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum eða innihalda innihaldsefni framleidd úr erfðabreyttum lífverum, þar sem erfðabreytta efnið greinist ekki í lokaafurðinni.

Allt fóður sem Lífland framleiðir er merkt skv. reglugerðinni en í eftirfarandi samantekt má sjá stöðu hvers hráefnis fyrir sig í þessum málum:

Hveiti – allt það hveiti sem Lífland notar til fóðurgerðar er óerfðabreytt. Lífland kaupir sitt fóðurhveiti á evrópska efnahagssvæðinu og í ræktun þar er ekki leyft erfðabreytt hveiti.

Bygg – allt bygg sem Lífland notar til fóðurgerðar er óerfðabreytt. Sama gildir um fóðurbygg og fóðurhveiti – Lífland kaupir sitt fóðurbygg bæði innanlands og innan evrópska efnahagssvæðisins þar sem ekki eru leyfð erfðabreytt byggyrki.

Maís – allur maís sem Lífland notar til fóðurgerðar er evrópskur og skv. yfirlýsingum frá seljendum maíssins er allur sá maís sem Lífland kaupir óerfðabreyttur.

Sojamjöl – Lífland notar sojamjöl sem framleitt er úr S-amerískum sojabaunum. Stór hluti S-amerísku uppskerunnar er erfðabreyttur og getur Lífland ekki ábyrgst að um óerfðabreytta vöru sé að ræða. Því er allt okkar fóður þannig merkt að í því sé erfðabreytt sojamjöl.

Sykurrófur – Lífland kaupir sykurrófur sem framleiddar eru í Danmörku. Danski seljandinn ábyrgist að sykurrófurnar séu óerfðabreyttar.

Sojaolía – er keypt í samvinnu við norska kaupendur sem gera kröfu um óerfðabreytta sojaolíu og staðfesta með prófunum að svo sé.

Melassi – allur melassi sem Lífland kaupir og notar er af evrópskum uppruna og er óerfðabreyttur.

Jurtafita – inniheldur sojafitusýrur sem pressaðar eru úr erfðabreyttum sojabaunum. Því er jurtafita merkt erfðabreytt á umbúðum Líflandsfóðurs.