Fara í efni

Saga Líflands

Lífland hóf starfsemi sína 24. mars árið 1917 og hét þá Mjólkurfélag Reykjavíkur. Félagið var stofnað af bændum í Reykjavík og nærsveitum til að annast vinnslu og dreifingu mjólkur í Reykjavík. Jafnframt því hóf félagið að útvega bændum rekstrarvörur til búskapar. Afskiptum félagsins af mjólkurdreifingu lauk 1935 þegar umdeild mjólkursölulög tóku gildi og yfirtók Mjólkursamsalan í Reykjavík mjólkurstöð MR. Eftir það fór félagið að einbeita sér að sölu á rekstrarvörum til bænda og síðar fóðurframleiðslu.

Fyrirtækið hefur tekið töluverðum breytingum frá því að það var stofnað fyrir rúmlega 100 árum síðan en hefur þó ætið haldið tryggð við íslenskan landbúnað og er enn stór hluti starfseminnar tengdur þjónustu við bændur.

Árið 2005 var nafni félagsins breytt úr Mjólkurfélagi Reykjavíkur í Lífland. Ástæðan var sú að nafnið þótti ekki eiga lengur við, enda umsýsla með mjólk og mjólkurafurðir ekki lengur hluti af starfseminni. Var þá valið nafn sem var í takt við það sem fyrirtækið vildi vera fyrir land og þjóð. Lífland- fyrir lífið í landinu varð þannig til og hefur okkur þótt þessi setning ná vel utanum það sem Lífland stendur fyrir.