Nýr liðsauki hjá Líflandi

Baldur Örn Samúelsson fóðurfræðingur og Guðbjörg Jónsdóttir nýráðinn sölustjóri eru nýir liðsmenn á landbúnaðarsviði Líflands.

Fóðuráætlanir fyrir aukna afurðasemi
Lífland hefur um árabil verið í fararbroddi meðal fóðurfyrirtækja varðandi þekkingarmiðaða þjónustu við bændur. Árið 2014 hóf fyrirtækið að bjóða viðskiptavinum sínum upp á fóðuráætlanir í NutriOpt fóðuráætlanakerfinu í samstarfi við hollenska ráðgjafarfyrirtækið Trouw Nutrition. Þetta var viðbót við þjónustu við heysýnatöku sem félagið hóf að bjóða nokkrum árum áður, en fóðuráætlanirnar eru byggðar á heysýnunum sem tekin eru úr gróffóðri bænda. Í þessum áætlunum er lagt mat á hvaða kjarnfóður hentar best til viðbótar gróffóðrinu til að hámarka afurðir, heilbrigði hjarðarinnar og  nýtingu fóðursins. Þjónustan hefur mælst vel fyrir og þróunin hefur verið á þann veg að hún er orðin órjúfanlegur þáttur í því sambandi sem Lífland á við viðskiptavini sína enda hefur þjónustan sannað sig og bændur ná raunverulegum árangri með gerð fóðuráætlana. Í umhverfislegu samhengi eru fóðuráætlanir ekki síður mikilvægar, enda er framleiðni, hámörkun á skilvirkni og hagnýtingu aðfanga veigamikill liður í að minnka umhverfisfótspor landbúnaðar.

Guðbjörg og Baldur

Baldur Örn Samúelsson fóðurfræðingur til starfa
Nýlega lét Helgi Eyleifur Þorvaldsson, búfræðikandídat og ráðgjafi hjá Líflandi um árabil, af störfum en Helgi stýrði sölumálum og var lykilmaður Líflands í fóðurráðgjöf við bændur. Helga eru þökkuð góð störf en hann tekur nú við starfi brautarstjóra í búfræði við LbhÍ. Í hans stað hefur verið ráðinn Baldur Örn Samúelsson fóðurfræðingur, en Baldur hefur nýverið lokið framhaldsnámi í fóðurfræðum frá Háskólanum í Árósum í Danmörku. Baldur Örn er íslenskum bændum að góðu kunnur enda hefur hann starfað við fóðurráðgjöf og tengd verkefni hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins um árabil. Baldur Örn er auk þess búfræðikandídat frá Hvanneyri og alinn upp á kúabúinu Bryðjuholti í Hrunamannahreppi.

Guðbjörg Jónsdóttir nýr sölustjóri á landbúnaðarsviði
Nýverið var einnig ráðin til félagsins Guðbjörg Jónsdóttir en Guðbjörg er bændum að góðu kunn fyrir aðkomu sína að félagsmálum bænda, en Guðbjörg kom til Líflands frá Bændasamtökunum. Guðbjörg tekur við sem sölustjóri á landbúnaðarsviði. Guðbjörg er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur auk félagsmálanna víðtæka reynslu af búskap, áburðarsölu o.fl. Guðbjörg var um árabil bóndi að Læk í Flóahreppi og er fædd og uppalin á Reyni í Mýrdal og þekkir sauðfjár- og kúabúskap frá öllum hliðum.

Öflugir ráðgjafar á landbúnaðarsviði
Aðrir á landbúnaðarsviði Líflands eru:

Jóhannes Baldvin Jónsson landnýtingarfræðingur og vöruþróunarstjóri. Jóhannes sinnir vöruþróun, innkaupum og söluráðgjöf í mörgum vöruflokkum búrekstrar.

Helena Marta Stefánsdóttir söluráðgjafi og markaðsfulltrúi. Helena sinnir sölu- og ráðgjafarverkefnum, markaðsverkefnum og ýmsu fleiru. Helena Marta er líffræðingur.

Ástvaldur Lárusson er sölumaður sem einkum sinnir fóðursölu og fóðurráðgjöf. Ástvaldur er búfræðingur og stjórnmálafræðingur að mennt.   

Karítas Thoroddsen er sölumaður á Norðurlandi með aðsetur í verslun Líflands á Akureyri og sinnir söluráðgjöf- og þjónustu við bændur á sínu svæði. Karítas er með prófgráðu frá Bifröst.  

Ótaldir eru fjöldamargir verslunarstarfsmenn og aðrir sem sinna viðskiptavinum Líflands sem of langt mál væri að telja upp hér.

Lífland hefur um árabil verið að þróa og auka við vöruúrval sitt og hefur fært út kvíarnar á flestum sviðum. Lífland er þjónustudrifið fyrirtæki sem leitast við að uppfylla þarfir viðskiptavina sinna og bjóða flest það sem bændur þurfa við bústörfin, þ.e. allt nema dráttarvélar og tengdar vélar. Hvort sem það er áburður, sáðvara, rúlluplast, girðingarefni eða annað það sem þarf til verksins þá hefur Lífland upp á mikið að bjóða! Það er von okkar að með öflugum viðbótum í gott starfslið eflist þjónustan enn frekar og hvetjum við bændur til að kanna hvort hjá Líflandi leynist tækifæri til bættrar afkomu!


Karfa

Skoða körfu Karfan er tóm

Lífland ehf.

Verslun Reykjavík  |  Lyngháls 3  |  110 Reykjavík  |  Sími: 540 1125
Verslun Akureyri  |  Grímseyjargata 2  |  600 Akureyri  |  Sími: 540 1150
Verslun Borgarnesi | Digranesgata 6 | 310 Borgarnesi | Sími: 540-1154
Verslun Blönduósi |  Efstabraut 1  |  540 Blönduósi  |  Sími: 540 1155
Verslun Hvolsvelli | Ormsvöllur 5 | 860 Hvolsvelli | Sími: 487 8888
Verslun Selfossi | Austurvegur 69 | 800 Selfoss | Sími: 540 1165
Skrifstofa  |  Brúarvogur 1-3  |  104 Reykjavík  |  Sími: 540 1100
lifland@lifland.is

Opnunartímar verslana