Vel heppnaðir Bændafundir Líflands

Árlegir bændafundir Líflands voru haldnir í síðustu viku á átta stöðum á landinu. Í ár var fundarstöðum fjölgað um tvo og lá leiðin meðal annars til Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða, en þess utan voru fundir haldnir á Flúðum, Hvolsvelli, Akureyri, Varmahlíð, Blönduósi og í Borgarnesi.

Með í för var Gerton Huisman, sérfræðingur frá Trouw Nutrition í Hollandi og flutti hann fróðlegt erindi um undirstöðuatriði mjólkurfitumyndunar hjá mjólkurkúm. Jóhannes Baldvin Jónsson söluráðgjafi hjá Líflandi fjallaði um niðurstöður heysýna ársins, en heysýnataka hefur verið vaxandi þáttur í þjónustu Líflands við bændur. Einnig fjallaði Helgi Eyleifur Þorvaldsson, fóðurráðgjafi hjá Líflandi um nýtt og öflugt fóðuráætlunarkerfi Líflands, NutriOpt.

Í erindi sínu fjallaði Gerton Huisman um ýmis undirstöðuatriði sem varða góðan mjólkurfitubúskap, svo sem aðbúnað gripa, almennt heilbrigði, steinefnafóðrun o.fl. Gerton lagði mikla áherslu á að huga þurfi að fóðrun fyrir aukinni fitu í mjólk með tilliti til próteinhlutfalls og nytjar. Hækki fituhlutfall mikið á kostnað próteins aukist líkur á orkuskorti og súrdoða. Því geti kýr gengið um of á eigin fituforða sem jafnframt hafi neikvæð áhrif á frjósemi. Æskilegt er að fita sé á bilinu 1-1,5 sinnu hærri en próteinhlufall og verðefni fylgist þannig að. Fjallað var um nokkur fitumyndandi hráefni á borð við sojahýði, sykurrófur og C:16 fitusýrur.

Jóhannes Baldvin kynnti samantekt á því helsta sem lesa má úr niðurstöðum heysýna ársins, en í ár byggja þessar niðurstöður á 742 heysýnum sem aflað var hjá bændum af starfsfólki Líflands og RML. Lífland hefur um árabil skipt við rannsóknarstofuna BLGG í Hollandi um greiningar heysýna og hefur orðið mikil aukning í ásókn bænda í þessa þjónustu. Á landsvísu ber á því að hey eru próteinsnauðari, trénaðri og blautari en í fyrra, en þess skal geta að stærstur hluti sýna er af Suður- og Vesturlandi. Einnig var markvert hvað selen hækkar mikið í heyjum milli ára, og var meðalgildi allra heysýna um 220 míkrógrömm í kg þurrefnis sem er á góðu róli hvað viðmiðunarmörk um æskilegan styrk selens í gróffóðri varðar.

Helgi Eyleifur fjallaði í erindi sínu um nýtt bestunar- og fóðuráætlunarkerfi auk NIR greiningarbúnaðar fyrir hráefni og fóður, en Lífland hefur á árinu fjárfest í fullkomnum tækja- og hugbúnaði til bestunar á fóðurblöndum og vinnslu fóðuráætlana fyrir viðskiptavini. Kerfið, sem er hollenskt og nefnist NutriOpt, býður upp á gerð fóðuráætlana fyrir viðskiptavini og er þetta liður í því að útvíkka og auka þjónustu Líflands við bændur þegar kemur að fóðurráðgjöf. 


Karfa

Skoða körfu Karfan er tóm

Lífland ehf.

Verslun Reykjavík  |  Lyngháls 3  |  110 Reykjavík  |  Sími: 540 1125
Verslun Akureyri  |  Grímseyjargata 2  |  600 Akureyri  |  Sími: 540 1150
Verslun Borgarnesi | Digranesgata 6 | 310 Borgarnesi | Sími: 540-1154
Verslun Blönduósi |  Efstabraut 1  |  540 Blönduósi  |  Sími: 540 1155
Verslun Hvolsvelli | Ormsvöllur 5 | 860 Hvolsvelli | Sími: 487 8888
Verslun Selfossi | Austurvegur 69 | 800 Selfoss | Sími: 540 1165
Skrifstofa  |  Brúarvogur 1-3  |  104 Reykjavík  |  Sími: 540 1100
lifland@lifland.is

Opnunartímar verslana