Yfirlýsing frá Líflandi

Í Spenanum, mánaðarlegum fréttapésa frá Mjólkursamsölunni sem dreift er til allra innleggjenda mjólkur á landinu, og út kom 11. ágúst síðastliðinn, var meginumfjöllunin um fitu í mjólk. Í einblöðungnum var meðal annars fjallað um val á kjarnfóðri sem áhrifaþátt á fituhlutfall mjólkur. Forsvarsmenn Líflands hafa fundið sig knúna til þess að svara þessari umfjöllun. MS nefnir tilteknar kjarnfóðurtegundir samkeppnisaðila okkar vegna jákvæðra áhrifa á fitu, að því er fram kemur vegna hás hlutfalls sykurrófuhrats. Án þess að í því felist gagnrýni á kjarnfóðurtegundir annarra framleiðenda, teljum við að þessi framsetning MS standi á veikum grunni.

Lífland reið á vaðið, fyrst stóru fóðurframleiðendanna á íslenskum markaði, með kjarnfóðurtegundir sem hugsaðar voru til aukningar á fitu. Gerðar voru breytingar á flestum kjarnfóðurtegundum fyrirtækisins og hófst framleiðsla á endurbættu kjarnfóðri 25. febrúar síðastliðinn. Annars vegar var hlutfall fitusýra og sýrustigsjafnara aukið í flestum kjarnfóðurtegundum og hins vegar var hlutfall sykurrófna aukið í mörgum tegundum.

Líkt og Dr. Harald Volden sagði á fundi hjá MS síðastliðinn vetur, þá eru sykurrófur vissulega einn þáttur af mörgum til að auka fituhlutfall í mjólk. Aðrir þættir hafa þar einnig áhrif svo sem húðaðar og mettaðar fitusýrur og efni til sýrustigsjöfnunar í vömb. Stærsti áhrifaþátturinn er þó gróffóðrið, gæði þess og samspil við annað fóður. Samspilsáhrif margra þátta hafa því mikið að segja við val á kjarnfóðurtegund og heppilegasta samsetningin því jafn breytileg og dæmin eru mörg. Fulltrúar MS virðast hinsvegar hafa einfaldað dæmið nokkuð með því að halda því fram að kjarnfóðurtegundir með um og yfir 20% innihaldi sykurrófna séu úrslitaatriði í þessum efnum.

Við hjá Líflandi teljum einnig æskilegt að umræða um þróun próteinhlutfalls og nytjar fari fram samhliða umræðu um fituhlutfall í mjólk. Það er þekkt að fóðrun sem leiðir til mikillar aukningar á mjólkurfitu getur komið niður á próteinmagni. Meðan að prótein og fita hafa jafnt vægi í verðgrundvelli mjólkur teljum við nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina hvað þessi atriði varðar.

 


Karfa

Skoða körfu Karfan er tóm

Lífland ehf.

Verslun Reykjavík  |  Lyngháls 3  |  110 Reykjavík  |  Sími: 540 1125
Verslun Akureyri  |  Grímseyjargata 2  |  600 Akureyri  |  Sími: 540 1150
Verslun Borgarnesi | Digranesgata 6 | 310 Borgarnesi | Sími: 540-1154
Verslun Blönduósi |  Efstabraut 1  |  540 Blönduósi  |  Sími: 540 1155
Verslun Hvolsvelli | Ormsvöllur 5 | 860 Hvolsvelli | Sími: 487 8888
Verslun Selfossi | Austurvegur 69 | 800 Selfoss | Sími: 540 1165
Skrifstofa  |  Brúarvogur 1-3  |  104 Reykjavík  |  Sími: 540 1100
lifland@lifland.is

Opnunartímar verslana