Góð fóðuráætlun krefst góðra heysýna

Heysýni tekið
Heysýni tekið

Á síðastliðnum árum hefur Lífland aukið þjónustu við kúabændur, einkum á sviði ráðgjafar um fóðrun. Lífland hefur um árabil boðið upp á heysýnatöku og greiningu þeirra, í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið BLGG AgroXpertus í Hollandi. Ráðgjafar Líflands koma og taka sýnin úr fullverkuðum heyjum, með þar til gerðum heysýnabor, sem síðan eru send út með hraðpósti. Niðurstöður greiningar berast svo 7-14 dögum eftir að sýnin eru send út, sem tryggir skjóta og góða þjónustu við bændur.

Nú fer senn að líða að heyskap þó víða vori seint. Mikilvægt er að gera sér snemma grein fyrir líklegum þverskurði af komandi heyforða, þ.e. gera sér grein fyrir út frá túngrösum og aldri spildna hvaða fóður verði líklega nýtt í mjólkurkýr, hvað fóður verði nýtt í kálfa og hvað í geldkýr. Út frá þessum hugmyndum má síðan gera sér grein fyrir því magni af heysýnum sem þörf er á að taka í haust til að varpa sem bestu ljósi á gæði heyforða.

Heysýni gefa upplýsingar um ástand og gæði gróffóðursins, sem er undirstaða fóðrunar á hverju búi. Margvísleg gildi eru mæld, m.a. þurrefnisinnihald, prótein, tréni, meltanleiki, sykur, gildi sem gefa vísbendingar um verkun og lystugleika (ammoníak og smjörsýra), AAT og PBV gildi auk stein- og snefilefna svo nokkur lykilatriði séu nefnd. Niðurstöðurnar einar og sér geta gefið vísbendingar um hvert þarf að stefna með heildarfóðrun gripanna, þá með tilliti til kjarnfóðurs og annarra fóðurefna sem gefin eru með heyjum. Auk þess gagnast heysýni vel við gerð áburðaráætlunar til að meta áburðaþörf spildna.

Heysýni eru nauðsynlegur þáttur þegar kemur að gerð fóðuráætlunar. Fóðuráætlanir ganga út á það að finna heppilegustu nálgun á heildarfóðrun mjólkurkúa miðað við þau fóðurefni sem í boði eru, aðstæður og samsetningu hjarðarinnar, afurðir og síðast en ekki síst, lífeðlisfræði gripanna. Lífland býður upp á fóðuráætlunargerð í NutriOpt kerfinu sem er í eigu hollenska þekkingarfyrirtækisins Nutreco. Í því er skoðað hver af hinum fjölmörgu kjarnfóðurblöndum og bætiefnum Líflands hentar best með því fóðri sem aflað er á hverjum bæ. Reynsla bænda af þessum fóðuráætlunum er almennt mjög jákvæð og hefur hjálpað bændum mikið við að ná settum markmiðum.

Fóðuráætlanir og heysýni eru gott verkfæri til að nálgast fóðrun á skilvirkari og nákvæmari hátt, en hvoru tveggja er þeim annmörkum háð að vera nálgun á raunverulegar aðstæður. Því er eftirfylgni mikilvægur þáttur. Nauðsynlegt getur verið að endurskoða fóðuráætlun reglulega, sér í lagi ef breyting verður á gróffóðri sem gefið er. Slík vinnubrögð geta verið fljót að borga sig ef í ljós kemur að breyta þurfi um kjarnfóðurtegund eða bætiefni til að uppfylla þarfir gripa sem best. Þannig má  stuðla að betra heilsufari gripa, meiri nyt og auknum verðefnum. Því er afar mikilvægt að til séu góðar heysýnagreiningar sem endurspegla allt það fóður sem á að gefa yfir veturinn. Þannig er mun auðveldara að endurskoða fóðuráætlun reglulega, finna út hvaða fóður hentar best hverju sinni og hvaða fóðurtegundir passi saman.

Ráðgjafar Líflands heimsækja bú sé þess óskað og geta tekið út aðstæður og aðbúnað. Einnig býður Lífland bændum að fylgjast með niðurstöðum tank- og kýrsýna, hvort sem slíkt er sent reglulega til ráðgjafa fyrirtækisins eða með því að veita þeim aðgang að vefsvæði Auðhumlu þar sem nálgast má ítarlegri upplýsingar um framleiðslu hvers bús. Einnig eru ráðgjafar fyrirtækisins ávallt tilbúnir til skrafs og ráðagerða.

Við mælum með að huga snemma að skipulagi á heysýnatöku.
Ráðgjafar Líflands veita nánari upplýsingar í s. 540-1100 eða lifland@lifland.is

Grein þessi var birt í Bændablaðinu 28. maí 2015


Karfa

Skoða körfu Karfan er tóm

Lífland ehf.

Verslun Reykjavík  |  Lyngháls 3  |  110 Reykjavík  |  Sími: 540 1125
Verslun Akureyri  |  Grímseyjargata 2  |  600 Akureyri  |  Sími: 540 1150
Verslun Borgarnesi | Digranesgata 6 | 310 Borgarnesi | Sími: 540-1154
Verslun Blönduósi |  Efstabraut 1  |  540 Blönduósi  |  Sími: 540 1155
Verslun Hvolsvelli | Ormsvöllur 5 | 860 Hvolsvelli | Sími: 487 8888
Verslun Selfossi | Austurvegur 69 | 800 Selfoss | Sími: 540 1165
Skrifstofa  |  Brúarvogur 1-3  |  104 Reykjavík  |  Sími: 540 1100
lifland@lifland.is

Opnunartímar verslana